Description
Hér eins og í fyrri bókum í þessari ritröð er efnið tvískipt. Ljósmyndirnar sýna flestar ýmis brot af Suðvesturlandi en auk þeirra er brugðið upp eldri myndum. Í náttúru þessa landshluta er mjög ólíka fegurð að finna, allt frá brimssorfinni strönd Reykjaness og brennisteinshveri í Krýsuvík til hæsta foss landsins í Hvalfirði, stærsta hvers á jörðinni í Deildartungu, fegurðar Húsafells og Kaldadals.
Helztu áfangastaðir bókarinnar eru Herdísarvík, Krýsuvík, Grindavík, Reykjanes, Hvalsnes, Stafnes, Básendar og fyrrum byggð í Hraunum. Þarnæst er viðkoma á Elliðavatni, ýmsum stöðum við Esjurætur, á Hvalfjarðarströnd og í Botni, á Hvanneyri, Hvítárvöllum, Bæ, Reykholti og Húsafelli.
Merkilegt og minnisstætt fólk er meginumfjöllunarefni í bókartextanum. Áherzlan er á einstakar persónur sem standa uppúr. Við förum hingað og þangað um tímann, hittum Einar Benediktsson í Herdísarvík, Hallgrím Pétursson og Guðríði á Hvalsnesi, sjáum Kristján skrifara veginn á Kirkjubóli, hittum Benedikt Sveinsson assessor og frú Valgerði á Elliðavatni, kynnumst Búa Andríðssyni úr Kjalnesingasögu og merkum Kjalnesingum frá síðustu öld.
Við Hvalfjörð rekumst við á Hörð Grímkelsson og Geir fóstbróður hans í Geirshólma, hittum Sveinbjörn allsherjargoða á Draghálsi og Magnús Stephensen á Leirá.
Norðan Skarðsheiðar heimsækjum við þjóðhagann Þórð blinda á Mófellsstöðum, kynnumst skólahaldi Sigurðar Þórólfssonar á Hvítárbakka, lífsháttum og veizlum hjá Snorra Surlusyni í Reykholti; einnig merkum Húsfellingum, allt frá séra Snorra til brautryðjandans Kristleifs Þorsteinssonar og listamannsins Páls Guðmundssonar.
Reviews
There are no reviews yet.