Útsala!

Borgir og borgarskipulag. Þróun borga á Vesturlöndum – Kaupmannahöfn og Reykjavík

kr. 3990

Bjarni Reynarsson (Höfundur)

 

Borgir hafa verið til í árþúsundir en Reykjavík aðeins í rúm 100 ár. Íslensk menning er að stofni til dreifbýlismenning en borgarmenning barst fyrst hingað til lands frá Kaupmannahöfn á seinni hluta 19. aldar. Í bókinni er fjallað um sögulega þróun og skipulag borga og það sett í samhengi við skipulagssögu Reykjavíkur.

 

Bókinni er skipt í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi, upphaf og sögulega þróun vestrænna borga. Í öðru lagi, þróun og skipulag Kaupmannahafnar sem var höfuðborg Íslands í hartnær fimm aldir og í þriðja lagi, þróun og skipulag Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

 

Hér er á ferðinni fyrsta yfirlitsrit á íslensku um þróun borga frá örófi alda til okkar tíma. Bókin er aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á skipulagi borga og menningarsögu almennt. Um 500 myndir, kort og skýringarmyndir prýða bókina.

 

Umsagnir:

 

Aðgengileg fræðirit um skipulagsmál borga hefur lengi skort á íslensku. Hér bætir Bjarni Reynarsson úr brýnni þörf með yfirlitsriti þar sem raktar eru í ljósu máli hugmyndir um borgarskipulag frá upphafi vega. Sérstaklega er fjallað um þær tvær borgir sem kalla hefur mátt höfuðborgir Íslands, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Nauðsynlegt rit fyrir alla sem áhuga hafa á sögu borga og skipulagi.
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur

 

Þekking á þeim hugmyndum og lögmálum sem mótað hafa borgir á Vesturlöndum er nauðsynleg öllum þeim sem áhuga hafa á umhverfi sínu og vilja hafa áhrif á mótun þess. Efnismikil og ríkulega myndskreytt bók Bjarna Reynarssonar veitir gagnlega yfirsýn yfir upphaf og þróun þéttbýlis allt til okkar tíma. Mótunarsaga Reykjavíkur er sett í samhengi við alþjóðlega hugmyndasögu borgarskipulags og þróun Kaupmannahafnar, þeirrar borgar sem var lengstum tengiliður Íslands við þá sögu.
Pétur H. Ármannsson arkitekt

 

Borg mín borg
Hjálmar Sverrisson, DV 16. des. 2014

 

Borgirnar eru stórkostlegasta sköpunarverk mannsins. Það þarf ekki að fletta glæsilegri bók Bjarna Reynarssonar „Borgir og borgarskipulag“ lengi til að fá það staðfest einu sinni enn. Bókin er í stóru borti og ríkulega skreytt myndum af gömlum og nýjum borgum og skipulagsuppdráttum og teikningum. Catal Huyuk níuþúsund ára gömul borg í Tyrklandi, eins og menn sjá hana fyrir sér, borgir Grikkja og Rómverja, miðaldaborgir, endurreisnarborgir, stjörnuborgir, iðnaðarborgir, garðaborgir, nútímaborgir, bílaborgir, vistvænar borgir. Það er ekki hægt annað en að heillast af öllum þessum strúktúrum og samþjappaða lífsrými. Maður mátar sjálfan sig sem íbúa eða ferðamann í öllum þessum rýmum. Hvernig ætli sé að búa þarna?

 

Bókin skiptist í þrjá kafla. Sá fyrsti spannar sögu vestrænna borga frá upphafi til okkar daga. Annar kafli rekur þróunarsögu hinnar gömlu höfuðborgar okkar Íslendinga, Kaupmannhafnar. Þriðji kaflinn fjallar um sögu byggðaþróunar og skipulags Reykjavíkur.

 

Bjarni Reynarsson er einn reyndasti skipulagsfræðingur landsins. Hann er með doktorsgráðu í borgarlandfræði og skipulagsfræði frá Bandaríkjunum og starfaði um árabil á Borgskipulagi Reykjavíkur og síðan á þróunarsviði ráðhússins.

 

Hagstætt búsetuform

 

Bjarni rekur hvernig borgirnar urðu til sem hagstætt búsetuform á flæðilendum við stóru árnar í Mesópótamíu, í Egyptalandi og Kína fyrir þrjú til fjögurþúsund árum. Það búsetuform kallaði á sérhæfingu og lagskiptingu samfélagins, stjórnkerfi, ritmál, stærðfræðiþekkingu og tímatal. Segja má að í frumborgunum hafi verið lögð undirstaðan að vísindum og tækni, stjórnsýslu og listum.

 

Lífsskilyrðin og menningin móta borgirnar hverju sinni. Forngrikkir voru brautryðjendur í borgarskipulagi, skrifar Bjarni. Þeir skipulögðu stofnanir og markaðstorg í þungamiðju borganna. Frá þeim höfum við lýðræðisfyrirkomulagið og pólitíkina. Borgarskipulag Rómverja laut aftur á móti herdeildarfyrirkomulagi. Borgir miðalda voru fámennar og bundnar lénsfyrirkomulaginu. En svo fylgdu landafundir, endurreisnarstefnan, efling borgarastéttar og iðnbylting. Segja má að borgirnar hafi verið í sókn síðan, þótt ekki séu nema nokkur ár síðan að meira en helmingur mannkyns fór að búa í borgum. Ástæðan fyrir vinsældum borganna nú á dögum er áreiðanlega sú að á tímum hnattvæðingar reynast þær vera hagkvæm efnahagsleg og pólitísk eining.

 

Mismunandi gerðir borgarskipulags
Ólíkar borgir Mismunandi gerðir borgarskipulags

 

Bjarni Reynarsson gerir þessari merkilegu skipulagssögu borganna góð skil og það er áhugavert hvernig hann tengir samfélagþróun á 20 öldinni við strauma og stefnur í borgarskipulaginu. Í lok kaflans segir Bjarni frá því hvernig áherslan í skipulagi borganna síðustu tvo áratugina hefur snúist æ meira um lífsgæði og vistvænni lífshætti. Athyglin beinist nú að sjálfum borgarrýmunum; götum, torgum, görðum og útivistarsvæðum. Auk þess er nú mun meiri áhersla lögð á samráð og íbúalýðræði en áður var gert.

 

Borgir eru fyrir fólk, þannig gæti leiðarstef þessarar nýju borgarstefnu hljómað. Það þarf ekki að vera flókið. Bjarni vitnar í einn helsta hugmyndafræðing borgarstefnunnar, danska arkitektinn Jan Gehl. Hann var spurður í blaðaviðtali hvað helst beri að hafa í huga til að gera borgir 21. aldarinnar betri til búsetu. Svarið var stutt og laggott: Borgirnar eiga að vera „líflegar, öruggar, vistvænar og heilnæmar“. Bjarni bætir við að öllum þessum markmiðum megi ná fram með markvissri stefnumörkun í skipulagsmálum.

 

Kaupmannahöfn

 

Kaflinn um þróun og skipulag Kaupmannahafnar er ekki síður áhugaverður. Bjarni notar hana sem dæmi um þróun evrópskrar borgar frá upphafi til öndverðrar 21. aldarinnar. Hann lýsir því hvernig síldveiðibær og ferjustaður verður biskupsbær á 13.og 14 öld. Kaupmannahöfn varð ekki „kóngsins Kaupmannahöfn“ fyrr en lúterstrúarmenn höfðu rekið biskupana af valdastóli og hinn fjölmenntaði konungur Kristján 4. breytt „miðaldabæ í endurreisnarborg“ á 17. öld.

 

Vöxtur Kaupmannahafnar var gríðarmikill á fyrstu áratugum 20. aldar og mikið kapp lagt á að koma upp vatnsveitu, og rafveitu og nútímalegri fráveitu. Bjarni bendir á að fyrstu íslensku verkfræðingarnir og arkitektarnir lærðu á þessum tíma í Kaupmannahöfn: Rögnvaldur Ólafsson, Guðjón Samúelsson, Jón Þorláksson og læknirinn og skipulagshugsuðurinn Guðmundur Hannesson. Raunar mun stór hluti íslenskra verkfræðinga og arkitekta hafa lært í Kaupmannhöfn langt fram yfir miðja 20. öld.

 

Það segir sig sjálft að stefnur og straumar í Kaupmannhöfn höfðu og hafa líklega enn mikil á skipulagsáætlanir í Reykjavík. Áhersla á lýðheilsumál í borgarskipulaginu snemma á öldinni er dæmi um það og hið merka reykjavíkurskipulag Guðjóns Samúelssonar og Guðmundar Hannesarsonar frá 1927 dregur dám af þéttri randbyggð í Kaupmannahöfn.

 

Bjarni segir frá fyrsta svæðisskipulagi Kaupmannhafnar frá árinu 1947. Því var ætlað að bregðast við fyrirsjáanlegri úthverfa- og einkabílavæðingu. Það gat af sér hið svokallaða „fingraplan“, sem Bjarni segir vera eina áhrifamestu skipulagshugmynd 20.aldarinnar. Þessi hugmynd gekk út á að borgarsvæðið ætti að þróast meðfram fimm samgönguásum sem lægju út frá lófanum, það er að segja miðborginni. Einn aðalhöfundur skipulagsins var Peter Bredstorff prófessor við arkítektadeild listaháskólans í Kaupmannahöfn. Hann átti eftir að hafa mikil áhrif í Reykjavík því hann stjórnaði vinnu við fyrsta aðalskipulag Reykjavíkur 1962 – 1983. Það skipulag þótti nútímalegt og framúrskarandi á sínum tíma. En það átti engu að síður stóran þátt í að gera Reykjavík að þeirri dreifðu bílaborg sem hún varð síðar.

 

Bók Bjarna Reynarssonar er mjög fróðleg og þarft innlegg í hinni mikilvægu umræðu um sögu og samfélag borganna, umhverfi og lífsgæði. Texti og myndir spila vel saman. Þetta er ekki bók þar sem maður sleppir alveg að lesa textann og skoðar bara myndirnar. Undir lok bókarinnar verður þó textinn endurtekningasamur og upptalningakenndur. Hann virðist skrifaður í tímaþröng. Ég set líka spurningamerki við þá ákvörðun að birta lítt unnið efni úr skýrslum í bláenda bókarinnar. Það er ekki alveg nógu áhugaverður endir á mjög áhugaverðri sögu.

 

303 bls. | 280 x 220 | 2014 | ISBN 978-9935-458-19-3

Lýsing

Borgir hafa verið til í árþúsundir en Reykjavík aðeins í rúm 100 ár. Íslensk menning er að stofni til dreifbýlismenning en borgarmenning barst fyrst hingað til lands frá Kaupmannahöfn á seinni hluta 19. aldar. Í bókinni er fjallað um sögulega þróun og skipulag borga og það sett í samhengi við skipulagssögu Reykjavíkur.

 

Bókinni er skipt í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi, upphaf og sögulega þróun vestrænna borga. Í öðru lagi, þróun og skipulag Kaupmannahafnar sem var höfuðborg Íslands í hartnær fimm aldir og í þriðja lagi, þróun og skipulag Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

 

Hér er á ferðinni fyrsta yfirlitsrit á íslensku um þróun borga frá örófi alda til okkar tíma. Bókin er aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á skipulagi borga og menningarsögu almennt. Um 500 myndir, kort og skýringarmyndir prýða bókina.

Umsagnir

Það eru engar umsagnir enn.

Ritaðu fyrstu umsögnina um “Borgir og borgarskipulag. Þróun borga á Vesturlöndum – Kaupmannahöfn og Reykjavík”

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *