Á ég að gæta systur minnar? eftir Jodi Picoult hefur farið sigurför um heiminn allt frá því hún kom út í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum. Anna er ekki veik, en hún gæti allt eins verið það. Aðeins þrettán ára gömul hefur hún gengist undir ótal skurðaðgerðir, blóðtökur og sprautur svo að eldri systir hennar, Kate, geti tekist á við hvítblæði sem hefur herjað á hana frá barnæsku. Hún hefur aldrei sett spurningarmerki við þetta hlutverk sitt … þar til nú að hún tekur ákvörðun sem mun splundra fjölskyldu hennar og líklega verða systurinni sem hún elskar að fjörtjóni. Bókin hefur trónað í efstu sætum metsölulista beggja vegna Atlantsála enda er hér á ferð mögnuð saga sem fjallar um áleitin siðferðisleg málefni.
Þýðandi er Ingunn Ásdísardóttir.
Umsagnir gagnrýnenda
Sársaukafull fjölskyldumynd
Systurnar Kate og Anna eru eins og hverjar aðrar unglingsstúlkur, 16 og 13 ára, að vakna til lífsins og vitundar um sjálfa sig, fáandi áhuga á útliti sínu og hinu kyninu. Þær deila herbergi, eru trúnaðarvinkonur, eru ósammála um ýmsa hluti, rífast og sættast og eru á margan hátt mjög venjulegar. Í lífi þeirra er þó fátt venjulegt.
Kate hefur verið með sjaldgæft afbrigði af hvítblæði frá tveggja ára aldri og Anna var bókstaflega framleidd til að halda halda lífi í Kate eftir nákvæmt glasafrjóvgunarval, sjá henni fyrir varahlutum. Á þeim þrettán árum sem hún hefur lifað hefur hún margoft þurft að ganga undir erfiðar aðgerðir og nú stendur hún frammi fyrir því að gefa Kate annað nýra sitt. Hún neitar í fyrsta sinn og fær sér lögfræðing til að verja rétt sinn.
Í fjölskyldu þeirra snýst allt um veika barnið Kate. Anna er varahlutalager, eldri bróðir þeirra, vandræðaunglingurinn Jesse, er, löngu týndur í stríði móðurinnar við sjúkdóminn. Það er hún sem stjórnar öllu og stýrir, faðirinn setur ekki spurningarmerki við ákvarðanir hennar. Það rís enginn gegn þessari sterku, ákveðnu konu fyrr en Anna segir nei.
Frásagnarmáti sögunanr er óvenulegur. Anna er ekki ein um að segja hana, heldur fær lesandinn að skyggnast inn í hugarheim Kate, móðurinnar, föðurins, Jesses, lögmanns Önnu, og konunnar sem er skipuð réttargæslumaður hennar.
Anna þarf ekki einungis að taka ákvörðun sem varðar eigið líf og verður til þess að systir hennar deyr, heldur þarf hún að standa á ákvörðuninni gagnvart móður sem virðist all óbilgjörn. Átökin eru fyrst og fremst á milli þeirra tveggja. Til að byrja með er erfitt að hafa samúð með móðurinni sem virðist fátt kunna betur en að þrýsta á sektarkenndarhnappinn hjá fjölskyldumeðlimunum. En smám saman verður þreyta hennar skiljanleg; hún er við það að bugast í stríðinu við sjúkdóminn. Ef ekki væri fyrir varahlutalagerinn Önnu, væri Kate löngu dáin. En það er enginn að nærast í þessari fjölskyldu, enginn til að veita næringu. Það eru allir að tapa einhverju stríði. Fjölskyldan fer í gegnum réttarhöld þar sem úrskurða á um læknisfræðilegan sjálfsákvörðunarrétt Önnu og í því ferli koma upp flóknar sið- og lögfræðilegar spurningar sem er stillt upp andspænis tilfinningalegum spurningum og því flókna mynstri sem ríkir í fjölskyldu sem ekki hefur stjórn á aðstæðum sínum.
Á ég að gæta systur minnar? er virkilega áhrifarík saga. Það er síður en svo að orðræðan í henni sé um lagaflækjur og heimspeki. Það segja allir söguna eins og þeir séu á trúnaðarstigi við lesandann, út frá sínum leyndustu tilfinningum. Það reynir enginn að fegra sig, heldur afhjúpa persónurnar varnarleysi sitt. Fyrir bragðið verða þær allar áhugaverðar og framvindan aldrei fyrirsjáanleg. Síst af öllu endirinn. Þýðingin er prýðisvel unnin, textinn laus við að vera á nokkurn hátt enskuskotinn, þvert á móti er oft fallega unnið úr honum og algerlega án þess að fallið sé í væmna pyttinn. Bók sem erfitt er að leggja frá sér eftir að lestur er einu sinni hafinn.
Súsanna Svavarsdóttir, Fréttablaðið 26. nóv.
Djúpskyggn átakasaga
Hér vakna stórar spurningar: Hvenær á að setja hnefann í borðið? Hvað réttlætir uppreisn sem getur slitið fjölskyldubönd? Hvernig lífi ber að halda til streitu? Aðalpersóna sögunnar, 13 ára telpa, gerir uppreisn gegn hlutverki sem hún er getin til að gegna, þ.e. að halda með blóð- og merggjöf lífi í eldri systur sinni sem þjáist af hvítblæði. Nú er komið að því að henni er ætlað að gefa nýra. Hún hefur fengið nóg; stríð innra með stúlkunni færist yfir á vettvang fjölskyldunnar þar sem móðirin ætlar sér að ráða. Allir sem tengjast málinu verða þátttakendur í sársaukafullum átökum þegar farið er með þau inn í réttarkerfið og heilbrigðiskerfið. Framvindan er spennuþrungin með sérstökum hætti. Hér er ekki vakin einföld spenna um spurningu eins og hver framdi glæp, heldur hvað sé glæpur. Hver hefur skilgreiningarvaldið og ákveður hvað er réttlætanlegt? Hver ætti að hafa slíkt vald? Hvernig mótast vilji okkar og hugmyndir af reynslu okkar og aðstæðum? Þetta er hugvekjandi saga sem fjallar um sígild, sammannleg viðfangsefni, hún tengist sígildum spurningum um val og vald, mat á réttu og röngu, muninn á siðfræði og siðferði.
Persónugerð og hugarfar þeirra sem koma við sögu verður ljóst af orðum þeirra og gjörðum. Í hverjum kafla talar ákveðin sögupersóna í trúnaði um framvinduna og dregur fram ýmislegt um forsöguna. Úr verður skýr og trúverðug reynslu- og persónulýsing. En þó tók mig tíma að sættast við dýptina og breiddina í tali og þekkingu systranna ungu: Veldur alvaran og þjáningin í því sérstæða lífi sem þær lifa óvenjulegum þroska?
Næmur höfundur fangar hér með stílgáfu sinni og þekkingu hug lesandans í margþætt, tengslanet persónanna, opnar auðvelda leið inn í hugarheimi þeirra ólíku persóna sem bera frásögnina uppi; standa saman eða takast á í sáru og lærdómsríku uppgjöri. Orð þeirra og athafnir snerta og opna svo djúpa innsýn að lesandinn kann að líta á sitthvað, sem honum virtist sjálfsagt mál, öðrum augum en fyrr. Það magnar áhrifin að fleiri en einni sögu fer fram með markvissum tengslum. Siðferðileg og félagsleg viðfangsefni kunna að horfa með nýjum hætti við þeim sem kynnist þessu verki; ýta þeim til að endurskoða sitthvað um vald, skyldur og frelsi; jafnvel uppeldisskilyrði og verkefni og markmið heilbrigðiskerfis ríkra þjóða svo eitthvað sé nefnt.
Reynslan af lestri þessa verks er gerð léttbærari og dýpri með bæði hlýlegri og kaldranalegri kímni; það er eins og höfundurinn finni á sér hvenær lesandinn er farinn að bíða eftir vissum létti. Það má spyrja sig að því hvort í endinum felist ódýr eða stórsnjöll lausn. Sennilega hallast festir að því síðarnefnda. Sögusviðið verður ljóst og nærtækt; fátt í umgjörðinni er framandi. Ef til vill á vönduð og lipur þýðing Ingunnar Ásdísardóttur þátt í því; hér gægist frummálið ekki gegnum textann.
Hörður Bergmann, kistan.is
Bókin Á ég að gæta systur minnar? er saga af fjölskyldu með langveikt barn. Dauðinn á næstum sinn eigin stól við kvöldmatarborðið, svo oft hefur hann verið nálægur þeim, því Kate, sem er miðbarnið, greindist með bráðahvítblæði fyrir 14 árum, þá tveggja ára að aldri. Anna sem er 13 ára hefur gengist undir ótal aðgerðir til að gefa systur sinni blóð, frumur og sitthvað fleira, en nú vill hún ekki láta bjóða sér þetta lengur. Í fyrsta kafla bókarinnar mætir Anna á skrifstofu lögmanns sem hún óskar eftir að aðstoði sig við að lögsækja foreldra sína, því ætlast þeir til að hún gefi systur sinni annað nýra sitt. Anna vill sjálf ráða hvað er gert við líkama hennar og hún býður lögmanninum sparifé sitt, sem er svo lítið að það dugar ekki einu sinni fyrir vinnu hans í eina klukkustund. Hann fellst engu að síður á að taka verkefnið að sér og hún má fægja hurðarhúnana á skrifstofu hans upp í það sem upp á vantar.
Í bókinni er tekist á við margar og áleitnar siðferðilegar spurningar og lagalegar vangaveltur sem láta engan ósnortinn. Einnig hlýtur lesandinn að velta fyrir sér hve mikið ein fjölskylda geti afborið af veikindum og öðrum erfiðleikum. Og hvernig líf ætli fjölskyldan í bókinni hefði átt ef veikindi Kate settu ekki svip sinn á það með þeim hætti sem lesandinn fær að kynnast. Hvernig hefði ræst úr Jesse? Hvaða tækifæri hefðu systurnar átt? Ótal margar spurningar leita á lesandann.
Persónur bókarinnar eru dregnar skýrum og trúverðugum línum. Anna er kotroskin í meira lagi, og það er gaman að fylgjast með því hvernig hún veltir fyrir sér öllu milli himins og jarðar. Elstur af systkinunum er Jesse sem er dæmigerður vandræðaunglingur og fær enga athygli nema þegar hann á í vandræðum sem nóg virðist af. Uppbygging bókarinnar er áhugaverð og sjónarhornið síbreytilegt. Anna er sögumaður fyrsta kaflans, lögmaðurinn þess næsta og síðar taka foreldrar og systkini Önnu við ásamt tilsjónarmanni hennar. Þetta er snjöll aðferð höfundar til að gefa lesendum innsýn í hugarheim sögupersónanna allra og tilfinningalíf. Í einum kaflanum var ég tilbúin að snúast gegn þessum tilætlunarsömu foreldrum, en þegar þau sögðu sögu sína var ekki hægt annað en að skilja þau mætavel.
Jodi Picault er einn vinsælasti kvenrithöfundur samtímans og Á ég að gæta systur minnar? er talin besta bók hennar til þessa. Hún hefur ekki setið auðum höndum, heldur hefur hún skrifað 15 bækur á síðustu 16 árum ásamt því að vera sjálf fjölskyldukona með eiginmann og þrjú börn. Hún segist skrifa hvenær sem tækifæri gefst til og góðar hugmyndir skrifar hún gjarnan strax á handarbakið. Hún skrifaði þær einnig á börnin sín hér áður fyrr en stenst nú orðið mátið hvað það varðar. Stíll hennar er lipur og auðlesinn og Ingunn Ásdísardóttir slær ekki feilnótu í þýðingu sinni.
Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur
Hörkugóð bók um siðaklemmu
Jodi Picoult, höfundi bókarinnar Á ég að gæta systur minnar? tekst að skapa spennandi sögu þar sem siðferðileg klemma er þungamiðjan. Söguhetjan Anna er genetísk samstæða Kate systur sinnar. Fljótlega eftir fæðingu Kate kom í ljós að hún var með bráðahvítblæði og ekki hugað langt líf. Foreldrar hennar, Sara og Brian og bróðir hennar Jesse geta ekki gefið henni mergstofnfrumur og því er gripið til þess ráðs að sérvelja stofnfrumur næsta barns þeirra svo eldri dóttirin geti þegið líffræðilegar gjafir þess. Fyrst aðeins til að nýta naflastrenginn en síðar til að gangast undir ýmsar aðgerðir, blóðtökur og sprautur til að Kate geti tekist á við hvítblæðið. En hvar eru mörk hjálparinnar?
Þegar sagan hefst er Anna 13 ára en Kate 16 ára og foreldrar þeirra vilja að Anna gefi Kate nýra. Anna er ekki sjálfráð en hún leitar til Campbells lögmanns til að ganga fyrir fjölskyldudóm og öðlast læknisfræðilegt sjálfræði yfir líkama sínum. Hún segir: „Ég vil fara í mál við þau [foreldrana] um réttinn til að ráða yfir líkama mínum sjálf.“ (21). Campbell tekur málinu og virðist gera það af hégómlegum ástæðum eða til að hljóta sjálfur athygli.
Sögunni vindur svo áfram þar sem varpað er ljósi á afstöðu og líf móður, föður, systur, bróður, lögmanns og réttargæslumanns ásamt heilbrigðisstarfsfólki og öðrum aukapersónum. Söguaðferð Jodi Picoult felst í því að segja söguna út frá nokkrum sjónarhornum og heitir hver kafli eftir hverri persónu: Önnu, Söru, Brain, Jesse, Campbells og Júlíu réttargæslumanns Önnu sem jafnframt er fyrrverandi kærasta Campbells. Þessi frásagnaraðferð heppnast býsna vel hjá Picoult en hún velur hana í stað þess að segja söguna í þriðjupersónu.
Campbell spyr Önnu: „En þú hefur greinilega samþykkt að gefa systur þinni líffæri fram að þessu?“
Hún hikar og hristir höfuðið. „Ég var aldrei spurð.“
„Hefurðu sagt foreldrum þínum að þú viljir ekki gefa nýra?“
„Þau hlusta ekki á mig.“
„Kannski gera þau það, ef þú talar um það við þau.“
Hún lítur niður svo hárið hylur andlitið. „Þau hafa í rauninni aldrei neinn sérstakan áhuga á mér nema þegar þau þurfa blóð úr mér eða eitthvað. Ég væri ekki einu sinni til ef Kate hefði ekki verið veik.“
Erfingi og annar til vara: Þennan sið má rekja aftur til forfeðra minna á Englandi. [Hugsar Campbell] (23).
Bókin Á ég að gæta systur minnar? hefur notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum, enda hafa stofnfrumurannsóknir verið þar í brennidepli og stjórn Georges W. Bush verið þeim fráhverf. Sagan vekur spurningar um mörk lífs og dauða, hvort allt sé leyfilegt til að gera tilraun til að bjarga barni frá dauða vegna erfðafræðilegra galla.
Sagan veitir trúverðuga innsýn í huga foreldra og barna þeirra þar sem helstu hugtökin eru ást, virðing, traust og umhyggja andspænis lífi og dauða. Nokkrar hliðarsögur eru einnig í bókinni eins og samband lögmannsins og réttargæslukonunnar og saga Jesse bróður systurinnar. Jesse er brennuvargur en faðir hans er slökkviliðsmaður.
Ég hygg að allar persónur sögunnar geti átt vísa nokkra samúð lesenda og þær taka allar nokkrum breytingum. Sögufléttan er einnig ágæt og býst ég við að lesendur verði nokkuð sáttir við sögulok, en þau eru ekki fyrirsjáanleg. Bókin á erindi við nútímann, hún er um efni sem skiptir máli og sem geta komið upp í náinni framtíð. Þýðing Ingunnar Ásdísardóttur er til fyrirmyndar.
Hörkugóð bók sem ég mæli hiklaust með.
Gunnar Hersveinn, Lesbók Mbl. 2. des.
381 bls. | 150 x 230 mm | 2006 | ISBN 9979-772-74-3
Umsagnir
Það eru engar umsagnir enn.