Description
Illur fengur segir frá langri afbrotasögu í afskekktu héraði við Breiðafjörð á öndverðri 20. öld. Heimilisfólk á bæ í miðri sveit kemst upp með stórtækan sauðaþjófnað í áratugi og að því er virðist í skjóli sýslumanns sem jafnframt er þingmaður sýslunnar. Nágrannabændur kæra æ ofan í æ en verður ekki ágengt. Réttarhöld fara fram og skýrslur teknar af kærendum og meintum sauðaþjófum en þær lenda allar í harðlæstum skúffum sýslumanns.
Það er svo ekki fyrr en sauðaþjófarnir færa sig upp á skaftið og taka til við annars konar og augljósari afbrot í sveitinni að héraðsmönnum er ofboðið. Sýslumaður heldur uppi réttarhöldum en í miðjum klíðum tekur dómsmálaráðherra landsins suður í Reykjavík málin í sínar hendur. Þau eru ekki lengur í höndum sýslumanns Dalamanna, heldur er það sjálfur lögreglustjórinn í Reykjavík sem skipaður er rannsóknardómari í málinu. Er það svo með næsta ævintýralegum hætti að meintur sakamaður er ginntur suður til Reykjavíkur með aðstoð hómópata sveitarinnar og héraðslæknis við Breiðafjörð vegna handarmeins. Hann er á leið á Landspítalann með handarmeinið en í Reykjavík tekur einn af vörðum laganna á móti honum við skipshlið en ekki neinn heilbrigðisstarfsmaður frá Landspítalanum. Um þetta þegja öll málsskjöl en upphefst ófyrirséð atburðarás með miklum afleiðingum.
Reviews
There are no reviews yet.