Gleymd

kr. 6999

Unnur Sólrún Bragadóttir

 

Kemur úr um miðjan október.

 

Erna er 27 ára, vinnur hjá bókaforlagi og fær það verkefni að rita ævisögu Evu sem lengi bjó í Danmörku og varð þar þekktur rithöfundur. Undir lok síðustu aldar er Eva flutt heim. Hún leitar til forlagsins og biður um að Erna skrái ævisögu sína. Eva á litríkt líf að baki, hún var m.a. orðuð við fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, bankastjóra Seðlabankans og þekktan rithöfund. Þeir voru allir við nám í Kaupmannahöfn þegar Eva var upp á sitt besta. Eva er orðin veik, einmana og full haturs og hefnigirni og ætlar að koma höggi á fyrrum félaga sína. Erfið æska og brostnar vonir sækja á hug hennar. Þó hún sé öllum gleymd hefur hún engu gleymt. Nú er tímabært að sannleikurinn líti dagsins ljós. Það reynist flóknara en Erna átti von á. Þetta verkefni á eftir að draga dilk á eftir sér.

 

165 bls. |135×210 | 2025 | ISBN 978-9935-520-74-6

 

Description

Erna er 27 ára, vinnur hjá bókaforlagi og fær það verkefni að rita ævisögu Evu sem lengi bjó í Danmörku og varð þar þekktur rithöfundur. Undir lok síðustu aldar er Eva flutt heim. Hún leitar til forlagsins og biður um að Erna skrái ævisögu sína. Eva á litríkt líf að baki, hún var m.a. orðuð við fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, bankastjóra Seðlabankans og þekktan rithöfund. Þeir voru allir við nám í Kaupmannahöfn þegar Eva var upp á sitt besta. Eva er orðin veik, einmana og full haturs og hefnigirni og ætlar að koma höggi á fyrrum félaga sína. Erfið æska og brostnar vonir sækja á hug hennar. Þó hún sé öllum gleymd hefur hún engu gleymt. Nú er tímabært að sannleikurinn líti dagsins ljós. Það reynist flóknara en Erna átti von á. Þetta verkefni á eftir að draga dilk á eftir sér.

1 review for Gleymd

  1. Guðný Anna Arnþórsdóttir

    Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi fæðingarinnar í lífi mannanna, slíkur grundvöllur sem hún er. Miserfið, misgleðileg, alltaf stórmerkileg.

    Fæðing bókar – frá hugmynd til útgáfu – er til umfjöllunar í þessari bók. Ferlið frá hugmynd til útgáfu bókar getur leitt ýmislegt óvænt í ljós og komið við líf margra. Svo er raunin í því ferli að skrifa æviminningar skáldkonunnar Evu, enda ýmis óvæntir afkimar sem skrásetjarinn fær að sjá, þó ekki kanni hún þá alla að þessu sinni. Erna er 27 ára sjálfstæð móðir hans Flóka, sem baslar eins og ýmsir við að lifa sínu lífi í Reykjavík áttunda áratugar síðustu aldar, með mömmusamviskubit og afkomukvíða. Lífið er allskonar hjá henni, en hún heldur ótrauð áfram, beinskeytt, heiðarleg og í raun huguð. Hún hefur orð látins föður síns að leiðarljósi: „Stattu alltaf með þér.“ Hún hefur eins og fleiri tilhneigingu til að missa mörkin við viðfangsefnið en bæði hennar eigin meðvitund um það og óbilandi trú á markmiðinu verður til þess að takmarka skaðann, vonandi. Áður en hún veit af er hún orðin hluti af lífi viðfangsefnisins og það á eftir að breyta heimsmynd Ernu. Þessi unga kona er um margt hvatvís og lætur engann eiga neitt inni hjá sér. Hún fylgir hlutunum eftir til enda og munar ekki um að bregða sér í hlutverk leynilögreglu, ef því er að skipta. Hún skorar líka eigin siðferðistilfinningu á hólm, þegar slíkt verður að hennar mati hluti leiðarinnar að markinu, fæðingu bókar. Það verður ljóst við lesturinn að ferlið hefði aldrei leitt til fæðingar þeirra er lagt var upp með, útkomu æviminninga Evu, ef Erna væri ekki nákvæmlega eins og hún er.

    Skáldkonan Eva á sér skrautlega fortíð í Danmörku og víðar og er hinn erfiðasi viðmælandi skrásetjara sínum, á tíðum fyrtin og jafnvel illskeytt. Eva hefur verið víðlesinn og vinsæll höfundur og verk hennar þýdd á mörg tungumál. Lesandinn vildi gjarnan vita meira um höfundarverk hennar, en hver veit nema það komi síðar. Eva vill að bókin verði alfarið á eigin forsendum en þær litast flestar af hefnigirni og hatri. Lesandinn upplifir sterkt hversu Eva hefur lítið getað unnið úr reynslu sinni og tilfinningum. Upprifjanirnar hafa þau áhrif á Evu að hún verður sífellt tæpari til andlegrar og líkamlegrar heilsu. Erna sýnir þessu staka þolinmæði, af samlíðan og mannúð tengir hún vanheilsu skáldkonunnar við brengluð foreldrasamskipti og ýmsar lífsglímur fyrr á lífsgöngunni. Viðbrögð Ernu við óvæntum upplýsingum og ófyrirsjáanlegri framvindu verða til þess að fæðingin heppnast og bókin kemur út. Bók er fædd – og það sem meira er, óvæntir kimarnir gefa til kynna að fleiri bækur um Evu muni líta dagsins ljós. Það verður spennandi að fylgjast með fæðingu þeirra.

    Stíllinn er hraður og á köflum er bókin mjög spennandi. Ýmis smáatriði í daglegu stússi persónanna, einkum Ernu og Flóka, eru tíunduð og það hægir mátulega á. Aðalpersónurnar, Erna og Eva, eru dregnar skýrum dráttum, aðrir eru óljósari, en það kemur að engri sök. Samtöl Ernu og Evu eru kostuleg á köflum, sem er gott mótvægi við þá gífurlegu sorgarsögu sem Eva hefur að segja. Þetta skapar jafnvægi í sögunni þannig að segja má að bókin standi með sjálfri sér, frá upphafi til enda, eins og pabbi Ernu brýndi fyrir henni sjálfri.

    Leikandi skrifuð bók um fæðingu bókar, en líka um sorg, afleiðingar áfalla, hugrekki ungrar konu og lífið í Reykjavík á níunda áratug síðustu aldar.

    Kápa bókarinnar er sérlega falleg og hana prýðir mynd sem er sterk tilvísun í söguna um einmana konu sem þrotin er kröftum. Samt er þarna lífsneisti, rauður kjóll!

    Guðný Anna Arnþórsdóttir

Add a review

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *