Húnvetningasaga
Húnvetninga saga greinir frá atburðum í Húnaþingi frá því skömmu fyrir 1700 til 1850. Þar koma við sögu Páll Vídalín, Bjarni Halldórsson á Þingeyrum, Natan Ketilsson og Skáld-Rósa, Björn Blöndal, Ísleifur seki og Þórdís á Vindhæli, svo nokkur séu nefnd, en einnig fjöldi annarra sem núlifandi Húnvetningar eiga ættir að rekja til. Sagt er frá sakamálum og slysförum, sóttum og harðindum, kýmilegum atvikum og ýmsu sem bregður ljósi á lifnaðarhætti forfeðranna. Í sögunni eru margar tækifærisvísur, ádeilukveðskapur og atburðavísur. Fjölmörgum einstaklingum er lýst, bæði að útliti og eðliskostum og gerð grein fyrir ættum þeirra. Jón Torfason íslenskufræðingur frá Torfalæk hefur búið ritið til prentunar. Hann hefur gert skýringar við ritið og ritað ítarlegan formála og tekið saman nafna- og atriðisorðaskrár. Auk þess eru í ritinu ættartölur helstu persóna sem við sögu koma, svo auðvelt er að tengja þær saman og eins er auðvelt að rekja ættir þeirra til núlifandi manna. Loks er þess að geta að í ritinu eru nokkrir uppdrættir af gömlum bæjarhúsum í Húnavatnssýslu teiknaðir af Þorsteini Konráðssyni.
Reviews
There are no reviews yet.