20. nóv. 2013
Skrímslið litla systir mín kemur út á færeysku
Enn er Skrímslið litla systir mín að leggja land undir fót og ætlar að þessu sinni að heimsækja frændur okkar í Færeyjum. Næstkomandi föstudag, 22. ... [meira]

16. okt. 2012
Skáldsaga eftir Evu Joly kemur út í dag
Skáldsaga Evu Joly og Judith Perrignon kemur í verslanir í dag. Hörkuspennandi saga úr fjármálaheiminum þar sem fléttast saman þræðir stjórnmála, ... [meira]

15. des. 2011
Dæmisögur Esóps besta þýdda barnabókin
Bóksalar veittu í gær verðlaun þeim bókum sem þeim þykja bestar þetta árið. Í þeim hópi var bókin Dæmisögur Esóps sem kosin var besta þýdda ... [meira]

03. feb. 2011
Helgi hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin
Helgi Hallgrímsson hlaut í gær Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita fyrir Sveppabókina. Fyrr í vikunni var bókin tilnefnd til ... [meira]

11. nóv. 2010
Nýjar bækur
Á morgun koma út tvær nýjar bækur hjá Skruddu. Ólafur Haukur Símonarson sendir nú frá sér bókina Ein báran stök sem er mögnuð saga úr íslensku ... [meira]

Skip Navigation Links
Landbúnaðarsaga Íslands 1-4

Verð kr. 29990,-
Tilboðsverð kr. 19990,-
Í þessu mikla verki er rakin saga landbúnaðar á Íslandi frá landnámi til okkar daga. Verkið skiptist í fjögur bindi. Fyrsta bindið rekur þróun landbúnaðar frá upphafi byggðar fram til 1800. Í öðru bindi er fjallað um bændasamfélagið á 19. og 20. öld og þær miklu breytingar sem orðið hafa á þessu tímabili. Þriðja og fjórða bindi fjalla um búgreinarnar. Í þriðja bindi er sauðfjárrækt, nautgriparækt og hrossarækt til umfjöllunar og í fjórða bindi er fjallað um aðrar greinar landbúnaðarins, jarðrækt, garðrækt, skógrækt, fiskeldi og veiði í ám og vötnum, svína- og alifuglarækt, og loks loðdýrarækt.

Efnisþættir

1. bindi – Þúsund ára bændasamfélag


I. Þróun landbúnaðar 10.000 f.Kr. til 800 e.Kr.
Upphaf landbúnaðar
Landbúnaður í nágrannalöndum 4000 f.Kr.–800 e.Kr.
Noregur 4000 f.Kr.–800 e.Kr.
II. Landbúnaður á Íslandi 900–1100
Samhengi og orsakir landnáms
Áhrif landnáms á umhverfið
Landbúnaður á 10. og 11. öld
Framleiðsla og landnýting
III. Landbúnaður 1100–1400
Landbúnaður í Íslendingasögum
Byggð og umhverfi 1100–1400
Mannvist og búskapur
Bændur og betra fólk
Átök og ófriður 1100–1400
IV. Landbúnaður 1400–1600
Plágan mikla – svarti dauði
Plágan síðari
Leiguliðar og landeigendur 1400–1600
Miðstjórnarvald styrkist
V. Jarðabókin og tímabil hennar 1600–1800
Byggð og íbúafjöldi
Hungur og hallæri
Framleiðsla og neysla
Jarðeignir, kvaðir og kúgildaleigur
Ríkið kemur til skjalanna
Einokunarverslunin og bændur
VI. Þúsund ára bændasamfélag – Samantekt

2. bindi – Bændur og nútími - Sveitasamfélagið á 19. og 20. öld

I. Vaxtarskeið á 19. öld
Við upphaf 19. aldar
Árferði, byggðaþróun og aðbúnaður á 19. öld
Fjölskylda, vinnufólk, menntun, konur, börn
Jarðeignamál á 19. öld
Hagvöxtur í bændasamfélagi
Selstöðuverslun og verslunarfélög bænda
Bændur og sjálfstæðisbarátta
II. Lok landeigenda- og Danaveldis 1880–1920
Sveitirnar 1880–1920
Þéttbýli vex, landbúnaður í þéttbýli
Kaupfélögin og stjórnmálahreyfingar bænda
Búnaðarfélög og bændaskólar
III. Matvælamarkaður í þéttbýli verður til
Landbúnaður á fullveldistíma
Að loknu stríði
Uppgangstími 1923–1930, ríkisafskipti hefjast.
Áratugurinn 1930–1940
Millistríðsárin, mótunarskeið nýjunganna
IV. Vaxtarskeið landbúnaðar 1940–1980
Áhrif heimsstyrjaldarinnar síðari í sveitum
Að loknu stríði – landbúnaður 1945–1959
Byltingin í sveitunum
Góðærið 1960–1980
Ríkisaðstoð og framleiðniþróun
Blikur á lofti
V. Landbúnaður 1980–2010
Kvótinn
Þjóðarsáttartímabilið
Umskipti á mörgum sviðum
VI. Tvær aldir bændasamfélags – Samantekt

3. bindi – Hefðbundnar búgreinar

I. Sauðfjárrækt
Íslenska sauðféð
Ullariðnaður og fjárkláði
Fjárhirðing og fjárrækt
Sauðasala og samvinnuverslun
Sauðfjárræktin á tuttugustu öld
Innflutningur sauðfjár á kreppuárunum og karakúlsjúkdómar
II. Nautgriparækt
Nautgriparækt á fyrri öldum
Framfaraviðleitni
Nautgriparæktin á 20. öld
Frá rjómabúum til mjólkursamlaga
Skipulag mjólkurmarkaðarins
Mjólkuriðnaður nútímans
Nautakjötsframleiðsla og holdagripir
III. Hrossarækt
Hrossarækt á öldum áður
Hrossarækt
Útflutningur hrossa
Hrossarækt á síðari árum

4. bindi – Jarðrækt og aðrar búgreinar

I. Jarðrækt
Plógur tákn ræktunar
Tún og túnrækt
Tilbúinn áburður
Ræktunarsambönd
Heyskapartæki
Súrhey – vothey
Vélar og verkfæri
II. Geitfé, alifuglar, svín
Geitur
Alifuglar
Svínarækt
III. Garðyrkja
Gróðrarstöðvarnar
Garðyrkja
IV. Skógrækt
Af fornum skógum og skógarnytjum
Skógrækt
Skógrækt ríkisins
V. Veiðimál og fiskrækt
Veiði og veiðideilur
Rannsóknir og ræktun
Fiskeldi
VI. Loðdýrarækt
Refur og minkur
Loðdýrabylgjan miklaNokkrar umsagnir

Landbúnaðarsaga Íslands er stórvirki sem lengi verður vitnað til

Stutt umsögn á netmiðli getur því aldrei orðið alvöru dómur um stórvirki eins og Landbúnaðarsöguna, til þess er einfaldlega hvorki tími til að liggja yfir verkinu né tóm til að skrifa um alla þætti þessarar löngu og miklu bókar, sem reyndar skiptist í fjögur hnausþykk bindi. En það væri heldur ekki sanngjarnt að láta þess ekki getið að bókin fjallar um sitt mjög áhugaverða umfjöllunarefni á líflegan fróðlegan og (að því er best verður séð) mjög tæmandi hátt. Þetta er stórvirki sem lengi verður vitnað til.

Bókin er í raun opinber saga landbúnaðar á Íslandi og gefin út með tilstyrk landbúnaðarráðuneytis og hagsmunaaðila. Það hefur þann kost að höfundarnir hafa fengið tíma og aðstöðu til að sinna verki sínu af kostgæfni og þess sjást augljós merki. Á hinn bóginn hefur þessi “authorized” staða verksins líklega einnig þær afleiðingar að ekki er eins mikið fjallað um allskonar gagnrýnisverða þætti í sambandi við landbúnaðinn og gert hefði verið ef höfundar hefðu verið alveg “sjálfstæðir” ef svo má segja. Ég tel þó að sá ókostur sé ekki stórvægilegur í þessu sambandi, þetta stórvirki er einfaldlega hin opinbera saga og verður góður grunnur fyrir þá sem vilja fjalla um einstaka þætti á gagnrýninn hátt.

Höfundarnir eru tveir, þótt greinilega hafi margir fleiri einnig komið við sögu. Árni Daníel Júlíusson skrifar tvær fyrstu bækurnar sem fjalla um sögu landbúnaðar á Íslandi allt fram á 20. öld. Fyrir flesta almenna lesendur mun þessi hluti verksins þykja merkilegastur og forvitnilegastur. Miðað við hve mikið Íslendingar skrifuðu um atburði sögunnar og uppátæki stórbokka í samfélaginu er furðulegt hve lítið þeir skrifuðu um sitt daglega strit og Árni Daníel hefur ekki átt auðvelt verk að púsla saman þeirri mynd af landbúnaði fyrri alda sem hér blasir við. En honum tekst það á einstaklega skýran og aðgengilegan hátt, kaflarnir eru stuttir og skýrt afmarkaðir og þessir hlutar Landbúnaðarsögunnar eru þannig uppbyggðir að maður getur gluggað í þá og lesið sér til fróðleiks og skemmtunar einn og einn kafla, en einmitt þannig er eiginlega óhjákvæmilegt að svona stór verk séu skrifuð, ef þau eru hugsuð fyrir einhverja aðra en mestu sérfræðinga.

Árni Daníel skrifar mjög læsilegan og líflegan stíl, án þess að fara út í nokkrar öfgar, hann vekur áhuga lesandans og er naskur á hvað er forvitnilegt. Ég hafði til dæmis ekki áttað mig á þeirri staðreynd að framan af öldum voru öll íslensk húsdýr mun minni en þau eru núna, bæði kýr, kindur og hestar. Það var greinilega ekki fyrr en á 18. öld sem þau fara að stækka. Og munurinn var furðu mikill.

Seinni tvö bindin skrifaði Jónas Jónasson fyrrum búnaðarmálastjóri sem lést þegar verki hans var nærri lokið. Hann skrifaði um landbúnað á 20. öld og fram á okkar daga. Farið er í gegnum hverja búgrein fyrir sig, hér er boðið upp á gnótt upplýsinga og fróðleiks og Jónas skrifar skýrt og skilmerkilega, þótt stíll hans sé aðeins þurrari en stíll Árna Daníels í fyrri hlutanum. Þessi tvö bindi vekja kannski minni áhuga almennra lesenda en þeim mun meiri athygli fræðimanna og sérfræðinga í landbúnaðarmálum. Fínn kafli er um tækjabúnað í landbúnaði en ég saknaði þess svolítið að ekki skyldu birtar skýringamyndir af vinnubrögðum, sem nú eru óðum að hverfa, eða listar yfir orðaforða. Þegar ég var að alast upp var ég með annan fótinn hjá skyldfólki mínu á Ströndunum og þá þegar voru að hverfa í gleymskunnar dá bæði vinnubrögð og orð yfir ýmislegt sem laut að landbúnaðarverkum, Jónas hefði mátt halda því skipulegar til haga. En á heildina litið er verk hans mjög greinargott og nauðsynlegt.

Allur frágangur bókarinnar er með mestu ágætum, myndaval hefur tekist vel, frágangur frábær og prentun ljómandi. Í heild má segja að þetta mikla verk þeirra Árna Daníels og Jónasar hefði vel átt skilið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka, en kannski hefur viðfangsefnið þótt aðeins of sérhæft. Ég er þó ekki sammála því, landbúnaður hélt lífinu í þjóðinni öldum saman og sérstaklega þáttur Árna Daníels í þessu verki sýnir að það er vel hægt að skrifa um þessi mál á þann hátt að allir geta haft gaman og gagn af.

Kristján Kormákur Guðjónsson, Pressan, 8. des. 2013

Svarfdælskur doktor í bændafræðum með átta kíló af landbúnaðarsögu á jólamarkaðinn

Fjórar þykkar bækur í stóru broti í kassa; texti, ótal myndir og teikningar á 1.400 blaðsíðum. Aðgengileg framsetning og læsileg. Landbúnaðarsaga Íslands er komin út, gríðarmikið verk og spennandi, saga bændasamfélagsins og atvinnugreinarinnar frá upphafi byggðar til okkar daga. Höfundur texta í tveimur bindanna og myndaritstjóri allra fjögurra er Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur, Árni Dan frá Syðra-Garðshorni.

Skrifara þessara lína hafði tekist að gleyma því algjörlega að einhvern tíma í sumar hafði hann skráð sig kaupanda að þessu fjölbinda ritverki og núna í vikunni bankaði útsendari bókforlagsins Skruddu upp á með 8,5 kg af lesefni. Það gerir 2.500 krónur fyrir kílóið í áskrift en 3.500 krónur út úr búð. Mikil og holl andleg næring fyrir tiltölulega fáar krónur, þannig séð.

Árni Daníel skrifar fyrri hluta verksins. Hann fjallar um þúsund ára bændasamfélag og félagslega sögu þess á Íslandi frá landnámi og fram á 20. öld. Hinn ritstjórinn, Jónas Jónsson, fyrrverandi búnaðarmálastjóri og alþingismaður, skrifaði síðari hlutann. Hann fjallar um hefðbundnar búgreinar og aðrar búgreinar og um jarðrækt.

Jónas féll frá þegar hann hafði lokið að mestu við textann en það kom í hlut Árna Daníels, Helga Skúla Kjartanssonar sagnfræðings og fleiri að velja myndir og búa bindin tvö eftir Jónas til prentunar.

Ingólfur Júlíusson, bróðir Árna Daníels, hannaði bækurnar og sá um umbrot tveggja binda. Hann var að vinna við útgáfuna þegar hann veiktist og lést síðan fyrr á þessu ári. Ingó á því mikið í verkinu og Árni Daníel heiðrar minningu bróður síns með því að tileinka honum Landbúnaðarsögu Íslands í formálsorðum sínum.

Doktor í bændafræðum

Árni Daníel og Jónas fengu báðir þá hugmynd á sínum tíma að skrifa sögu íslensks landbúnaðar og færðu það í tal við þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústsson. Í framhaldinu kviknaði sú hugmynd að leiða þá saman til starfa og það varð úr. Höfundarnir skiptu með sér verkum og nálguðust umfjöllunarefnið á býsna ólíkan hátt. Samstarfið gekk vel og víst er að allir aðstandendur Landbúnaðarsögu Íslands eiga þakkir skildar fyrir afraksturinn.

Eftir lestur fyrsta bindisins eftir Árna Daníel að hálfu getur skrifari ekki annað sagt en það að allar frístundir næstu daga eru hér með fráteknar. Þetta er afskaplega fróðlegt, áhugavert og vel skrifað. Greinilegt er líka að höfundurinn þekkir efnið vel og honum tekst vel að koma því skýrt og skilmerkilega til skila. Enda doktor í bændafræðum, hvorki meira né minna!

Árni Daníel var á sínum tíma í þriggja manna hópi sem ritstýrði útgáfu á Íslenskum söguatlasi í þremur bindum. Áður hafði hann skrifað BA- og MA-gerðir í Háskóla Ísladns um íslenska bændasamfélagið á 19. og 20. öld og síðan tekið doktorspróf í Kaupmannahafnarháskóla um félagslega sögu bænda á Íslandi á miðöldum, frá 1300 til 1700.

Auðvitað lá beint við að Svarfdælingurinn hellti sér í að skrifa heildarverk um landbúnaðinn og bændasamfélagið á Íslandi.

„Það var búið að skrifa mikið um sögu verkalýðsins og sögu kapítalsins en mér fannst vanta mjög að fjallað væri félagssögulega um miðaldir og fram undir 1800, hvað verið hefði hér í gangi fyrir daga iðnbyltingarinnar. Um það fjallaði doktorsritgerðin og ég vildi koma því efni á framfæri og rifja svo upp fyrri kynni við bændasamfélagið á 19. og 20. öld sem ég skrifaði um á sínum tíma í Háskóla Íslands.
Reyndar má segja að Landbúnaðarsaga Íslands sé að hluta til afurð norrænnar samvinnu því undanfarin ár hafa komið út fjölbindaverk sagnfræðinga um landbúnað í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ég hef auðvitað kynnt mér þau og verið í sambandi við höfundana. Minn þáttur í íslensku landbúnaðarsögunni er skrifaður með svipuðum fræðilegum formerkjum og í svipuðum anda og ríkir í hinum norrænu verkunum, einkum í því norska. Bækurnar okkur eru því hluti af norrænni heild.“

Svarfdaelasysl.com, 14. nóv. 2013
343+344+311+359 bls. | 4 bindi | 280x220 | 2013 | ISBN 978-9935-458-00-1
Skrudda hefur gefið út fjölmargar bækur um sögu og sagnfræði. Skoðið nánar hér. [meira]
Skrudda hefur frá stofnun gefið út vandaðar fræðibækur í glæsilegum útgáfum. Úrvalið má skoða hér. [meira]